Við hlökkum til sumarsins 2025 og Veiðiþjónustan Strengir mun nú sem endranær bjóða fjölbreytt úrval veiðileyfa í bæði í lax og silung. Eftir gott sumar er ljóst að eftirspurn í flest okkar veiðisvæði er góð fyrir komandi sumar.
Jöklan er búin að sanna sig sem ein af bestu laxveiðiám landsins! Metsumar var í Jöklu með 1.163 laxa og fyrstu laxar veiddust veiddust 28. júní eftir flóð í opnum á undan. Stöðugar göngur voru svo langt inn í ágúst bæði stórlax og smálax og má nefna að samkvæmt veiðibók voru 207 laxar 80 cm og stærri og líklega hefur engin önnur laxveiðiá gefið þann fjölda laxa af þeirri stærð sumarið 2024. Silungsveiðin var tæplega 300 fiskar og aukning í vænum sjóbirtingi var áberandi bæði í Jöklu og hliðarám hennar. Yfirfall úr Hálslóni komi síðla september í stuttan tíma en veiðin í hliðarám var meiri en undanfarin ár enda auknar seiðasleppingar að byrja að slá þar inn.
Fyrir sumarið 2025 verður ekki komist hjá verðhækkunum í Jöklu fyrrihluta sumars. En á í neðsta svæðinu „ Jökla og Fögruhlíðará“ í júlí verður verðlækkun á því svæði! Hófleg verð og góð veiðivon er svo í Jöklu og hliðarám hennar seinnihluta sumars þó það komi yfirfall enda hafa seiðasleppingar í hliðarám verið stórauknar til að minnka áhrif yfirfalls á veiðina. Eftir miklar smálaxagöngur er horfur góðar með enn betri stórlaxaveiði 2025 og verður spennandi að sjá hvernig veiðin verður fyrstu vikurnar næsta sumar. Stöðugar endurbætur hafa verið gerðar árlega í Veiðihúsinu Hálsakoti og þjónustan er fyrsta flokks hjá frábæru starfsfólki okkar sem hlakkar til að taka á móti gestum þar næsta sumar.
Hrútafjarðará var með góða veiði eða 470 laxa sem er frábær veiði á þrjár stangir og 2024 var besta árið síðan 2016. Frá upphafi veiðinnar 21. júní og inn í september komu reglulegar úrkomur og aðstæður voru því oft ákjósanlegar.Góðar smálaxagöngur komu um mitt sumarið og gefur það einnig vísbendingu um góða stórlaxaveiði sumarið 2025. Hrútan er vinsæl veiðiá og allar stangirnar þrjár eru seldar saman í 2-3 daga hollum og öll aðstaða er fyrsta flokks. Ekki verður komist hjá hækkun 2025 vegna verðtrygginga á leigusamningi og eitthvað er um að holl losni þó að bókanir séu góðar í Hrútafjarðará.
Minnivallalækur var með ívið minni veiði en undanfarin ár eða á tæplega 200 urriða, en marga væna. Sumarið var kalt sem hafði áhrif á tökur og mikil úrkoma var ekki til að bæta aðstæður. Þó gerðu veiðimenn góða veiði inn á milli og virtist þá ekkert minna af fiski í læknum en oft áður. Stangardagurinn verður að mestu óbreyttur eða á bilinu 30.000-40.000 krónur næsta sumar. Innifalið er uppábúið herbergi í veiðihúsinu Lækjamót sem er nú svipað og gisting kostar víða í nágrenninu! Það er því óhætt að segja að veiðileyfið sjálft er mjög hóflegt ef tekið er tillit til þess hvað er innifalið. Þetta glæsilega veiðihús er alveg á árbakkanum með gistingu fyrir allt að átta manns og því góður kostur fyrir smærri hópa.
Áhugasamir eru hvattir til að hafa samband fljótlega því ljóst er að sala veiðileyfa gengur vel hjá okkur fyrir sumarið 2025.
Með veiðikveðju,
Þröstur Elliðason