STRENGIR

Search
Close this search box.
breski

Frá þresti

Við hlökkum til sumarsins 2024 og Veiðiþjónustan Strengir mun nú sem endranær bjóða fjölbreytt úrval veiðileyfa bæði í lax og silung. Þrátt fyrir misgóða veiði sumarið 2023 er ljóst að eftirspurn í flest okkar veiðisvæði er góð fyrir komandi sumar.

Jöklan er búin að sanna sig sem ein af bestu laxveiðiám landsins! Strax gaf fyrsti dagurinn
25. júní tóninn er 6 laxar veiddust og er ljóst að laxinn er að mæta fyrr með hverju ári enda er hlutfall stórlaxa að aukast. Og hann gekk hratt upp Jöklu enda var strax komið sumarvatn í júní og vatnshiti hár því það voraði snemma fyrir austan. Og fyrstu laxar ofan Hólaflúðar veiddust 27. júní en aldrei áður hefur lax veiðst ofarlega í Jökuldal í þeim mánuði. Stöðugar göngur voru svo allt þar til yfirfall kom í byrjun ágúst en aldrei hefur yfirfall úr Hálslóni komið svo snemma áður. Lítil ástundun var þá eftir það en bleikjuveiðin í hliðarám eins og í Kaldá var betri en oft áður. Síðan kom skot í laxveiðina er leið að lokum veiðitíma er aðstæður voru betri í hliðaránum og Jökla sjálf veiðanleg lokadaginn. Lokatala var 525 laxar og 356 silungar og þar af megnið sjóbleikja úr Fögurhlíðarós og Kaldá.

Fyrir sumarið 2024 verður ekki komist hjá verðhækkunum í Jöklu og áin er að mestu fullbókuð frá opnun og inn í miðjan ágúst af fastahollum. Þó er eitthvað laust í neðsta svæðinu „ Jökla og Fögruhlíðará“ í júlí. Ein mesta gönguseiðaslepping í langan tíma í hliðarár Jöklu var gerð vorið 2023 eða um 60.000 seiði! Von er því á góðri veiði í þeim síðsumars svo yfirfall mun þá ekki hafa eins mikil áhrif á veiðina. Upphafsárin á Jöklusvæðinu árin 2009-2012 gáfu t.d. 200-400 laxa árlega og þar af var megnið úr hliðaránum Kaldá, Laxá og Fögruhlíðará. Því má búast við að þær taki því við sér aftur í fjölda laxa með þessarri sleppingu. Hægt er að fá veiðileyfi síðsumars í þeim ( og Jöklu ef ekki yfirfall) og um haustið en veitt verður til loka september.

Hrútafjarðará gaf minnstu veiði í mörg ár eða 185 laxa og tæplega 100 silunga að mestu sjóbleikja á neðsta svæðinu. Frá upphafi veiðinnar 21. júní og inn í september kom varla dropi úr lofti og vatnsleysi var mikið vandamál líkt og víðar í öðrum laxveiðiám á svæðinu. Hnúðlax og síðan eldislax veiddust því miður einnig í töluverðum mæli er leið á sumarið en reynt var að veiða þá að mestu upp í góðri samvinnu við veiðimenn. Þrátt fyrir erfitt sumar er Hrúta vinsæl veiðiá og allar stangirnar þrjár eru seldar saman í 2-3 daga hollum og verð eru óbreytt fyrir sumarið 2024. Spyrjið um nánari upplýsingar.

Minnivallalækur var með svipaða veiði og undanfarin ár eða á bilinu 200-300 urriða, en marga væna. Stangardagurinn er að mestu óbreyttur eða á bilinu 25.000-40.000 krónur næsta sumar. Innifalið er uppábúið herbergi í veiðihúsinu Lækjamót sem er nú svipað og gisting kostar víða í nágrenninu! Það er því óhætt að segja að veiðileyfið sjálft er mjög hóflegt ef tekið er tillit til þess hvað er innifalið. Þetta glæsilega veiðihús er alveg á árbakkanum með gistingu fyrir allt að átta manns og því góður kostur fyrir hópa.
Áhugasamir eru hvattir til að hafa samband fljótlega því ljóst er að sala veiðileyfa gengur vel hjá okkur fyrir sumarið 2024.

Með veiðikveðju,
Þröstur Elliðason