Frá þresti

Við hlökkum til sumarsins 2022 og Veiðiþjónustan Strengir mun nú sem endranær bjóða fjölbreytt úrval veiðileyfa bæði í lax og silung. Hér kynnum við svæðin okkar og vekjum athygli á fyrirhuguðum breytingum á Jöklusvæðum.

Jöklusvæðið kom ágætlega út 2021 en meirihluti veiðinnar var ofan Hólaflúðar og lax gekk hratt upp Jöklu í hitabylgjunni sem stóð mest allt sumarið. Þrátt fyrir háan vatnshita, sem var oft um og yfir 20 gráður, var veiðin ótrúlega góð miðað við þær aðstæður. Mikið af stórlaxi gekk snemma og er óhætt að segja að Jökla hafi sannað sig sem stórlaxaá. Átján laxar sem voru 90 cm eða stærri komu á land í sumar.

 

NÝTT! Sumarið 2022 verður öllu Jöklusvæðinu skipt í tvö svæði fram yfir miðjan ágúst. Er þetta gert í ljósi reynslunnar og verða svæðin nefnd Jökla og Jökla og Fögruhlíðará. Gisting verður nú fyrir bæði svæðin í Veiðihúsinu Hálsakoti og gistirýmið verður stækkað þar fyrir sumarið. Síðari hluta ágúst og september verður svo allt veiðisvæðið eitt svæði  og nær þá yfir allar hliðarárnar með eingöngu 4-6 stangir. Svæðið Jökla nær frá veiðistaðnum Skipalág ásamt hliðaránum Kaldá og Laxá í Jökulsárhlíð og upp að Tregluhyl sem er um 80 km frá sjó, ofarlega í Jökuldal. Jökla II svæðið dettur út en áfram verða einungis 6-8 stangir á þessu víðfema svæði. Veiðimenn geta veitt enn ofar kjósi þeir svo.   Neðra svæðið, Jökla og Fögruhlíðará er neðan Skipalág í Jöklu þar með talinn Kaldárós þar sem lax og sjóbleikja bíður eftir að ganga upp í Kaldá ásamt allri  Fögurhlíðará með gjöfula ósnum þar. Áfram verða þrjár stangir á öllu þessu svæði sem er frábært fyrir sjóbleikju, sjóbirting og lax á hóflegu verði. Tilvalinn kostur fyrir smærri hópa að taka allar þrjár stangirnar saman.

Breiðdalsá var mjög slök í litlu og heitu vatni í júlí og ágúst í hitabylgjunni sem var á öllu Austurlandi. Snemma í september fór loksins að rigna og þá var ágæt veiði þá fáu daga sem veitt var. Verð veiðileyfa er óbreytt og er gistiaðstaða afar glæsileg í Veiðihúsinu Eyjar bæði fyrir lax og silungsveiðimenn við þessa fallegu veiðiá.

Hrútafjarðará gaf nákvæmlega sömu veiði sumarið 2021 og árið áður eða rúmlega 370 laxa þrátt fyrir mjög rólega veiði fyrri hluta sumars vegna vatnsleysis. Rættist úr er leið á og er Hrútan að halda sínu ágætlega miða við aðrar veiðiár í þessum landshluta. Uppistaðan í veiðinni var smálax en þó voru ríflega 100 tveggja ára laxar skráðir í bók. Hrúta er vinsæl veiðiá með eingöngu þrjár stangir og gott veiðihús.

Minnivallalækur var með svipaða veiði og undanfarin ár eða á bilinu 200-300 urriða, en marga væna. Stangardagurinn er  á bilinu 25.000-35.000 krónur næsta sumar. Innifalið er uppábúið herbergi í Veiðihúsinu Lækjamót sem er nú svipað og gisting kostar víða í nágrenninu. Það er því óhætt að segja að veiðileyfið sjálft er mjög hóflegt ef tekið er tillit til þess hvað er innifalið. Glæsilegt veiðihús alveg á árbakkanum með gistingu fyrir allt að átta manns og góður kostur fyrir hópa!

Áhugasamir hvattir til að hafa samband fljótlega því ljóst er að sala veiðileyfa gengur almennt vel fyrir sumarið 2022.

Hlakka til að heyra í ykkur,

Þröstur Elliðason