Previous
Next

Jökla

GJÖFUL LAXVEIÐIÁ ÁSAMT SMÆRRI HLIÐARÁM

Jökla gaf um 500 laxa sumarið 2021 og hefði verið mun meira ef Jökla sjálf hefði ekki farið á yfirfall seint í ágúst, en að meðaltali gerist það í lok ágúst. Veiði hélt áfram í hliðaránum en vegna þurrka voru skilyrði erfið í þeim. Frábær veiði miðað við aðstæður en vatnshitinn var oft um eða yfir 20 C í sumar í hitabylgjunni sem var mestan hluta sumars á svæðinu.

NÝTT! Fyrir sumarið 2022 verða breytingar og þetta svæði verður lengt í ljósi reynslunnar upp Jökuldalinn. Mikið af laxi  hefur undanfarin ár gengið upp á tilraunasvæðið sem var Jökla II ofarlega, en nú verður það svæði innifalið í skiptingu frá Veiðihúsinu Hálsakoti. Óbreyttur stangafjöldi verður á öllu svæðinu eða 6-8 stangir.  Þetta gefur gífurlega mikla veiðimöguleika á fjölda veiðistaða sem ná allt að 82 km frá sjó! Efsti veiðistaðurinn verður núna Tregluhylur og nær svæðið niður að veiðistaðnum Skipalág í Jökulsárhlíð, ásamt hliðaránum Laxá og Kaldá. Síðla ágúst bætist Fögruhlíðará við þetta svæði enda er þá orðin meiri hætta á yfirfalli og veiði nánast eingöngu stunduð í hliðaránum. Svæðið er selt í tveggja eða þriggja daga hollum og er skyldufæði í Veiðihúsinu Hálsakoti. Boðið verður upp á staka daga seint á veiðitímabilinu án skyldugistingar og fæðis. Veiðitímabilið er frá og með 27. júní til 30. september sem laxveiðisvæði þó að silungur veiðist allt sumarið, en um 100 silungar veiddust þarna líka sumarið 2021 sem meðafli. Aðallega var það sjóbleikja og þær voru allt að 65 cm þær stærstu og þá úr Kaldá! Sumarið 2022 verður skylt að sleppa sjóbleikjum sem er yfir 45 cm. Horfurnar eru mjög góðar fyrir 2022 þar sem náttúrulegi laxastofn vatnasvæðisins er í uppsveiflu en áfram verður þó sleppt seiðum, sérstaklega í hliðaránum til að tryggja góða veiði þar eftir að yfirfall kemur í sjálfa Jöklu.

 

Glæsilegt veiðihús

Á bökkum Kaldár stendur nýlegt og stórglæsilegt veiðihús til afnota fyrir veiðimenn á Jöklusvæðinu. Það var byggt árið 2007 og býður upp á frábæra aðstöðu og er samtengt með verönd við fjögur smærri hús með átta tveggja manna herbergjum, hvert með sér baðherbergi og sturtu. Meginhúsið hefur upphitaða vöðlugeymslu, aðgerðarherbergi með frystikistu, frábærri setu- og borðstofu með arin, eldhúsi með öllum nauðsynlegum tækjum og skemmtilegri verönd að flatmaga á í hléinu og á góðviðrisdögum. Rétt áður en komið er að brúnni yfir Kaldá er beygt til vinstri við afleggjara merktur Mássel (ef komið er að sunnan) og þá blasir veiðihúsið við. Fullt fæði og gisting kostar kr. 30.000 á mann á dag og er þá boðið upp á fyrsta flokks fæði og þjónustu. Ef óskað er eftir er hægt að gera tilboð fyrir hópa. Ekki verður skyldugisting í september á veiðitímanum og holl geta einnig keypt eingöngu gistingu ef þess er óskað.

Umsjónarmaður er Guðmundur Ólason í síma 660 6893

Myndband

Upplýsingar

Veiðisvæði:  Jökla frá og með Skipalág og að Tregluhyl ásamt Laxá og Kaldá. Fögruhlíðará bætist við þetta svæði síðla ágúst.

Tímabil:  27. júní – 30. september.

Veiðileyfi:  Tveir eða þrír dagar í senn frá hádegi til hádegis og stakir dagar einnig mögulegir frá morgni til kvölds síðsumars.

Daglegur veiðitími:  Veitt er frá kl. 8 – 13 og kl. 15 – 21 eftir hádegi. Brottfarardag síðasta morguninn skal veitt hætt kl. 12:00.

Fjöldi stanga:  Leyfðar eru 6-8 stangir en 4-6 stangir síðla ágúst og í september.

Verð:  Stöng á dag á bilinu
kr. 30.000 – 150.000

Veiðireglur:  Fluga er eingöngu leyfð í júlí og til síðla ágúst en spónn er einnig leyfður eftir það og í september. Er skylt að sleppa öllum löxum 70 cm og stærri. Leyfilegt er að hirða einn lax á stöng á dag undir þeim mörkum og veiða og sleppa eftir það. Æskilegt er að öllum laxi sé sleppt enda eru góð uppeldissvæði á vatnasvæði Jöklu. Sjóbleikju frá  45 cm er skyllt að sleppa í Jöklu líka.

Vinsælar flugur:  Rauð Frances, Svört Frances, Friggi, Sunray Shadow, Hitch tupes, Snælda og fl.

Veiði síðastliðin ár: Um 800 laxar og 50 silungar.

Umsjónarmaður/veiðivörður:  Guðmundur Ólason  í síma 660 6893.

Fjarlægð frá Reykjavík: 660 km

Akstur: Um 7 klst og 40 mín

Fjarlægð frá Egilsstöðum: 50 km

Akstur: Um 40 mín