STRENGIR

Salan hafin fyrir sumarið 2026

Veiðiþjónustan Strengir mun nú sem endranær bjóða fjölbreytt úrval veiðileyfa í bæði í lax og silung fyrir árið 2026. Veiðin var sveiflukennt hjá okkur sl. sumar en við megum vel við una miðað við að almennt var laxveiðin ekki góð á landinu. En silungsveiðin var betri en oft áður og það er ljóst að eftirspurn í flest okkar veiðisvæði er góð fyrir komandi sumar.

Jöklan er búin að sanna sig sem ein af bestu laxveiðiám landsins! Frábært sumar var í Jöklu með 955 laxa ef Fögruhlíðará er talin með og það þrátt fyrir að yfirfall hafi komið óvenju snemma eða 5. ágúst. Miklar smálaxagöngur voru áður enda stórir árgangar úr náttúrulegum stofni Jöklu að koma inn í veiðina. Og lax er að nema land langt upp Jökuldalinn og fyrstu laxar ofan Stuðlagils veiddust í sumar svo margir km hafa nú bæst við veiðisvæðin í Jöklu. Veiðin í hliðarám í ágúst og september var líka ágæt þrátt fyrir litla ástundun og var mun meira af laxi í þeim en sést hefur í mörg ár. Silungsveiðin í þeim var líka ágæt með ríflega 300 fiska og greinilegt að sjóbleikjan er að koma sterkari inn og sérstaklega í Kaldá.

Fyrir sumarið 2026 verður ekki komist hjá verðhækkunum í Jöklu en þó að mestu á fyrri hluta sumars. Eftir miklar smálaxagöngur er horfur góðar með  stórlaxaveiði 2026 og vart var einnig við góðar niðurgöngur af náttúrulegum gönguseiðum til sjávar sl. vor svo smálaxinn ætti að mæta líka sterkur. Stöðugar endurbætur hafa verið gerðar árlega á Veiðihúsinu Hálsakoti og á efra svæðinu Jöklu II á bænum Hjarðarhaga verður stórbætt aðstaðan fyrir veiðimenn fyrir næsta sumar.

Hrútafjarðará var með tæpa 200 laxa á þrjár stangir og veiðinni var ákaflega misskipt yfir sumarið. Lítið vatn framan af veiðitímanum hafði slæm áhrif en með haustrigningum komu skot og september var nánast með meðalveiði. En sjóbleikjuveiðin var ein sú besta í mörg ár með um 200 fiska og margar vænar. Og nú hefur verið ákveðið að skylda sé að sleppa allri bleikju árið 2026 til að tryggja viðhald stofnsins og vonandi að frekari uppsveifla verði þá á henni. Hrútan er vinsæl veiðiá og allar stangirnar þrjár eru seldar saman í 2-3 daga hollum og öll aðstaða er fyrsta flokks í veiðihúsinu.

Minnivallalækur var með meiri veiði en undanfarin ár eða hátt í 300 urriða og marga væna. Sá stærsti var 79 cm og nokkuð var um 60-70 cm fiska sem lækurinn er frægur fyrir. Sumarið var hlýtt sem hafði góð áhrif á tökur og oft var mikið um uppitökur sem bauð upp á líflegar þurrflugutökur. Fyrir sumarið 2026 verður stangardagurinn að mestu óbreyttur eða á bilinu 30.000-45.000 krónur næsta sumar. Innifalið er uppábúið herbergi í Veiðihúsinu Lækjamót sem er er mjög hóflegt ef tekið er tillit til þess. Þetta glæsilega veiðihús er alveg á árbakkanum með gistingu fyrir allt að átta manns og því góður kostur fyrir smærri hópa.

Áhugasamir eru hvattir til að hafa samband fljótlega því ljóst er að sala veiðileyfa gengur vel hjá okkur fyrir sumarið 2026.

Með veiðikveðju,
Þröstur Elliðason